Er sólarvörn hættuleg?

Húðin á mörgum hér í Kaliforníu er eftirtektarverð, þá einkum miðaldra ljóst hörund sem fengið hefur að baða sig árum saman í Kaliforníusólinni. Húðin verður þurr, líflaus, leðurkennd, með mikið af línum og brúnum litaflekkjum. Sömu áhrif sjást eftir ljósabekki. 

Að taka dúninn úr úlpu

Á forsíðu fréttamiðils var nýlega fjallað um að fólk ætlaði að flykkjast um miðja nótt til að baða sig í útfjólubláum geislum. Fyrir mér er það álíka og fólk væri að plokka dúninn úr úlpu sem héldi á þeim hita. Ég skil samt að vellíðanin sem fylgir ljósaböðunum er eftirsóknarverð en við erum að tala um afar skammvinn þægindi fyrir ævilangar skemmdir á einu flíkinni sem fylgir okkur út lífið. 

Sólarvarnir jafn skaðlegar? 

Í kjölfarið heyrðust raddir um að sólarvarnir þær sem við berum á okkur séu engu skárri en að baða sig í útfjólubláum geislum ljósabekkja. Þær séu eitur og stórskaðlegar. Höfum við þá verið blekkt hingað til? Fyrir mig sem þreytist ekki á að tala um mikilvægi sólarvarna var þetta eitthvað til að kafa betur í - því þekking breytist ört, líka læknavísindin. Sem dæmi voru ljósabekkir eitt sinn taldir góðir fyrir húðina.

Það er einkum þrennt sem menn hafa haft áhyggjur af í tengslum við sólarvarnir. 

  1. D-vítamínskortur, að sólarvörn hindri getu UVB geisla til að kveikja á framleiðslu D-vítamíns í húðinni. Rannsóknir eru þversagnakenndar. Þær hafa sýnt að framleiðslan geti minnkað og jafnvel aukist (líklega með því að verja meiri tíma úti og bera ekki næga sólarvörn á húðina). Hver sem sannleikurinn er þá ættu allir að taka inn D-vítamín sem fæðubótarefni á Íslandi því lega landsins veldur því að stærsta hluta ársins getum við hvort eð er ekki nýtt sólina til þessara verka og fæst okkar fáum nóg með fæðunni. Og þegar sólin er hátt á lofti að sumri til nægir að láta hana leika um húðina í 5 til 15 mínútur, tvisvar til þrisvar sinnum í viku til að fylla á D-vítamín tankinn, skv. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO)
  2. Tíðni sortuæxla hefur aukist í heiminum þrátt fyrir tilkomu sólarvarnarkrema, sem er vissulega áhyggjuefni. Talið er að kremin geti skapað falskt öryggi þannig að fólk dvelji lengur í sólinni, en sólarvarnir veita ekki fullkomna vörn gegn öldrun húðarinnar og húðkrabbameinum.
  3. Að sólarvarnir innihaldi taugaeitur og hafi hormónaáhrif en þessi vitneskja er að mestu byggð á dýra- og frumurannsóknum. Rannsóknir á mönnum eru til og hafa ekki sýnt fram á neina fylgikvilla eins og hormónaáhrif eða eitrun í því magni sem venjulega er borið á húðina.

Vítamín líka eitur

Húðin er eins og risastór munnur. Því eru t.d. lyf oft gefin gegnum húðina. Mörg þessara efna sem menn telja skaðleg í sólarvörnum er einnig að finna annarsstaðar í umhverfinu og þegar þau mælast í líkamanum þá er það ekki endilega frá sólarvörn, þó vissulega hækki styrkleiki þeirra eftir að sólarvörnin er borin á. Umhverfið okkar er ein efnasúpa. 

Í nógu miklu magni er margt eitur, jafnvel nauðsynleg næringarefni. Sem dæmi getur ofgnótt af A-vítamíni (sem er mikilvægt fyrir heilbrigða húð og sjón) valdið lifrarskemmdum  og jafnvel fósturskaða hjá þunguðum konum. Sink er sömuleiðis mikilvægt steinefni fyrir húðina en getur valdið eitrunareinkennum (ógleði, uppköst, kviðverkur, slen og þreyta) í of miklu magni.  

Lífrænar eða ólífrænar sólarvarnir

Á markaðnum eru um 30 mismunandi sólarvarnarefni, aðeins mismunandi eftir heimsálfum. Áhyggjurnar hafa aðallega tengst lífrænum (e. organic/chemical) sólarvörnum eins og oxybenzone og octinoxate en sólarvarnir með þessum efnum eru nú bannaðar á Hawaii þar sem þær eru taldar ein orsök þess að kóralrifin eru hverfandi. Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna gaf út yfirlýsingu að það þyrfti að skoða betur öryggi sólarvarna eftir að sýnt var fram á að lífrænu efnin mældust í hærri styrkleika í blóði heldur en áður voru talin örugg mörk. 

Aftur á móti hafa ólífrænu (e. inorganic/mineral) sólarvarnirnar, eins og zinc oxide og titanium dioxide, reynst hættulitlar því þær sitja á dauða hornlagi húðarinnar og fara ekki inn í líkamannZinc oxide hefur ágætis UVA vörn og titanium dioxide UVB vörn. Þessar sólarvarnir geta skilið eftir sig hvíta slikju en þær hafa orðið notendavænni með tímanum. Þeim sem eru með viðkvæma húð finnst oft gott að bera vörn með þessum efnum á húðina, enda hafa krem með zinc oxide grætt sára ungbarnabossa í gegnum tíðina. 

Hvað er til ráðs að taka

Flestir sérfræðingar eru sammála um að hættan sem stafar af sólarvörn er afar lítil miðað við skaðsemi útfjólublárra geisla. Við mælum því áfram með að nota sólarvörn á þau svæði sem er útsett fyrir sól. En sólarvörn ein og sér getur gefið falskt öryggi, sérstaklega ef húð þín er ljós. UVA síur í sólarvörnum eru enn ekki nógu öflugar til að verja húðina fullkomlega gegn húðskemmdum og sortuæxlum. Því er mikilvægt að verja húðina einnig á annan hátt og hafa eftirfarandi í huga: 

  1. Skynsamlegt er forðast sólina kringum hádegi, þ.e. tvo tíma sitthvoru megin þegar sól er hæst á lofti. Á Íslandi er sól yfirleitt hæst á lofti í kringum 13:30.
  2. Nýta skuggann. Það er enginn að segja að maður eigi að forðast sólina eins og heitan eld en maður getur líka notið hennar undir sólhlíf eða öðru sem skýlir okkur. Athugaðu að vegna endurkasts þá færð þú allt að 84% af útfjólubláum geislum á þig í skugga
  3. Klæða sólina af sér. Hattur með stóru barði getur verið glæsilegur og gagnlegur. Sólgleraugu með UV vörn verja þunnu húðina á augnsvæðinu og augun sjálf fyrir sólarskemmdum, t.d. skýi á auga. Nú er einnig hægt að fá útivistarfatnað með sólarvörn. Þegar drengirnir mínir voru litlir klæddum við þá í slíka heilgalla og þurftum þar af leiðandi að nota minna af sólarvörn. 
  4. Velja sólarvörn með titanium dioxide og zinc oxide ef þú hefur áhyggjur af að efnin berist inn í líkamann. Sólarvörnin þarf að veita vörn gegn bæði UVA og UVB og 30 SPF hið minnsta. 
  5. Algengt er að bera ekki nógu mikið á húðina til að fá þá vörn sem sóst er eftir en ágætt er að miða við um hálfa teskeið á andlit og staupglas á allan líkamann.
  6. Borða mat sem inniheldur efni sem lífeðlisfræðilega geta verndað húðina að hluta gegn útfjólubláum geislum og gefur henni þau verkfæri sem hún þarf til að laga sig eftir skaða af völdum útfjólublárra geisla. Hugsaðu appelsínugult og rautt, sætar kartöflur, gulrætur og fleira sem inniheldur beta-karótín og tómatar (niðursoðnir eða eldaðir) sem innihalda líkópen. Dökkgrænt grænmeti eins og grænkál eða spergilkál er líka næringarríkt. 
  7. Hófsemi er venjulega hinn gullni meðalvegur og sólarvörn betri en að brenna. 

Að lokum segi ég eins og afi minn sagði við mig: “gakktu hægt um gleðinnar dyr og gæfan veri með þér” - í sólinni. 


Lára G. Sigurðardóttir

 


Að ná slökun í streitu

 

Hvert sem við lítum loga áminningar um hættuna sem við búum við um þessar mundir, ásamt skilaboðum um að koma sér í öruggt skjól. Það er skrítin tilfinning að geta ekki faðmað fólkið sitt. Að hafa sífellt á tilfinningunni að mögulega geti maður verið að smita aðra eða bera smit heim í kæruleysi. Glundroði, óvissa, einangrun, einmanaleiki og kvíði virðist vera daglegt brauð sem borið er á borð fyrir okkur þessa dagana. Margt gott á sér einnig stað og ég hef ekki á minni lífstíð orðið vitni að jafn miklum kærleik og einmitt núna.

 

Handa- og heilaþvegin

Óvíst er hvenær við sjáum fyrir endann á vaktinni við að vernda okkur sjálf og aðra: “Ertu búinn að þvo þér, barn? Varstu ekki örugglega tvo metra frá vininum sem þú mættir í morgun? Hvernig kemst ég gegnum þessar dyr án þess að snerta hurðarhúninn? Notaðirðu hanska í búðinni? Snerti ég nokkuð með óhreinum fingrum að utanverðu hanskann sem ég klæðist í búðinni …” og ég hef ekki heyrt börnin segja “Ég þarf að þvo mér um hendur” jafn oft síðustu þrjár vikurnar og á þeirra samanlögðu lífstíð!

Að vera minntur margsinnis á dag á yfirvofandi lífshættu er staða sem fæst okkar hafa komist í áður. Vísindamenn hafa sett fram ýmsar kenningar um hvernig heilinn okkar bregst við í aðstæðum sem slíkum og skýringin sem mér finnst hljóma sennilegust á rætur að rekja til ósjálfráðra viðbragða sem við erfðum úr dýraríkinu. Eflaust eru aðrir sem kunna þessu betri skil en svona lítur heimur hugans út fyrir mér.  

 

Að halda sér á lífi

Skynfærin okkar, t.d. heyrn og sjón, eru stöðugt að senda skilaboð til möndlu sem er klasi af taugafrumum sem sitja djúpt í hvoru heilahveli og dregur nafn sitt af möndlulaga útliti.  Mandla er álitin einskonar stjórnstöð streituviðbragða því hún miðlar hegðun sem getur bjargað lífi okkar, enda er hún snör í snúningum og getur greint ógn í umhverfinu áður en þú áttar þig á að þú sért í hættu. 

Undir eðlilegum kringumstæðum lærir hún að greina raunverulega ógn með tímanum. Tökum dæmi. Ef þú sefur á nýjum stað og vaknar við hvert þrusk, þá er mandlan að sjá til þess að þú vaknir ef rándýr eins og björn er í umhverfinu. Eftir nokkrar nætur ferðu að sofa betur þegar hún áttar sig á að þér stafar engin hætta af þruskinu. Lykilatriðið hér er að átta sig á að mandla getur kveikt á streitukerfinu án þess að við séum alltaf meðvituð um það, því meðvitundin býr annarsstaðar í heilanum. 

 

Veiran og björninn

Þegar mandla skynjar hættu setur hún í gang streituviðbragð. Adrenalín streymir um æðar og þegar það dvínar er kortisóli dælt í blóðrásina til að viðhalda streituviðbragðinu. Við það hækkar blóðþrýstingur, vöðvarnir spennast og skynfæri okkar verða ofurnæm fyrir hættum - líkaminn er tilbúinn í átök. Ef einhver birtist óvænt fyrir aftan þig eru líkur á að þú stökkvir til þar sem vöðvarnir eru í viðbragðsstöðu. 

Streituviðbragðið sendir eldsneyti til frumstæðari svæða heilans sem starfa við það að bjarga lífi okkar. Ef björn nálgaðist þig væri það þér ekki til lífsbjargar ef allt eldsneytið færi í framheilann, sem myndi e.t.v. meta svo að nú væri tími til að hugleiða. Nema í okkar tilfelli er enginn björn, heldur veira sem við getum ekki greint með neinum af okkar skynfærum. 

Framheilinn hægir því á sér í streitu sem getur valdið því að við eigum erfiðara með sjálfsstjórn, einbeitingu og að skipuleggja nánustu framtíð. Streituviðbragðið hefur einungis áhuga á að bjarga þér úr aðsteðjandi hættu og frumstæðari svæði heilans sem fengu auka eldsneyti telja nóg að sinna grunnþörfum okkar, sem eru að borða, hvílast og ganga örna sinna. Kannski engin furða að fólk byrgir sig upp af klósettpappír og mat eða finni ekki þörf til að fara úr náttfötunum! Það er því fullkomlega eðlilegt ef þú kemur engu í verk undir álagi. 

Ógnin sem við stöndum frammi fyrir er raunveruleg og að talsverðu leyti óljós. Því hefur mandla okkar enga reynslu til að byggja á og við reynum að fylla í eyður með því að lesa fréttir. 

 

Að koma taumum á möndluna

Ef streitukerfið er í stöðugum gangi getur það til lengdar leitt til þess að mandla stækkar og verður ofurnæm, þannig að streituviðbragðið fari í gang við minnsta tilefni. 

Fræðin innan taugavísinda og læknisfræði huga og heilsu (e. mind-body medicine) benda á leiðir til að komast úr streituviðbragðinu. Það fer að sjálfsögðu eftir hve alvarleg streitueinkennin eru hvort maður getur unnið sig sjálfur út úr þeim eða þarf að leita sér aðstoðar. Hér erum við að tala um streituviðbrögð sem eru ekki orðin sjúkleg.

Framheilinn gegnir lykilatriði. Þegar við virkjum framheilann finnst okkur við hafa stjórn á aðstæðum og finnum fyrir ró. Í framheilanum er rökhugsun og sköpunargáfa, og hér sjáum við tækifæri. Þegar við upplifum að við séum örugg þá sendir framheilinn skilaboð til möndlu um að ógnin sé liðin hjá og við það róast mandla. Ýmsar leiðir eru til að virkja framheilann eins og hugleiðsla, jógaiðkun eða qi gong. Góður svefn skiptir einnig máli því þegar maður er svefnvana þá verður framheilinn latari en mandla sterkari. 

Til að taka þetta saman þá getur streituviðbragðið verið á fleygiferð innra með okkur án þess að við endilega gerum okkur grein fyrir því. Ef þetta ástand varir lengi þá geta líkamleg einkenni farið að koma fram eins og stoðkerfisverkir, höfuðverkur eða meltingarfæratruflanir fyrir utan að manni líður sjaldnast vel í sálinni. Það er því til mikils að vinna að skoða eigin líðan reglulega og athuga hvort maður sjái mynstur í viðbrögðum sínum því það er eðlilegt að sveiflast dag frá degi eftir hvaða upplýsingar berast til möndlu. 

 

EINNAR MÍNÚTNA SLÖKUNARÆFINGAR

Hér eru tvær algengar æfingar sem geta hjálpað þér að minnka streitu og auka vellíðan. Báðar æfingarnar taka um eina mínútu. Önnur miðar að því að því að kveikja á slökunarkerfinu gegnum flakktaugina og þar með hægja á streitukerfinu m.a. hægja á hjartslætti og slaka á vöðvaspennu. Núvitundaræfingar henta ekki öllum, ekki frekar en við pössum öll í sömu flíkina. 

 

Andað djúpt 4-7-8 

Þegar streituviðbragðið er í fullum gangi þá öndum við hraðar og grynnra. Sumir geta fundið fyrir andþyngslum hér, sérstaklega ef ástandið verður langvarandi eða lungnasjúkdómur er til staðar. 

Sjálf nota ég reglulega í öndunaræfingar, bæði í vinnu til að undirbúa skjólstæðing fyrir óþægilega meðferð og persónulega eins og þegar eitthvað stendur til sem stressar mig, eins og að fara í útvarpsviðtal eða að halda fyrirlestur. 

Mest má gera þessa æfingu fjórum sinnum á dag. Þó svo að æfingin noti 4-7-8 sekúndur þá eru það ekki heilagar tölur. Aðalatriðið er að þenja þind og brjóstkassa til að virkja slökunarkerfið gegnum flökkutaugina. 

Svona er æfingin: 

 

  • Láttu fara vel um þig. Ef þú situr athugaðu hvort þú ert beinn í baki: Grindarbotninn inn, brjóstkassi upp og eyru yfir öxlum. 
  • Tæmdu lungun með útöndun. 
  • Láttu tunguna hvíla fyrir aftan framtennurnar og upp að gómi. Dragðu inn andann í 4 sekúndur. 
  • Haltu andanum í 7 sekúndur. 
  • Andaðu með nokkrum krafti út um munninn í 8 sekúndur. 
  • Hér finnst mér gott að halda andanum í nokkrar sekúndur, áður en maður fer annan hring.

 

STOP 

Þessi æfing getur hjálpar þér að komast í betri tengingu við líðan þína. Henni kynntist ég á Mindfulness-Based Stress Reduction námskeiði sem ég sótti í Kísildalnum í Kaliforníu en kennt er um allan heim. Þetta er átta vikna námskeið þróað af Jon Kabat-Zinn sem er prófessor í læknavísindum og frumkvöðull í núvitund. Núvitund er orð sem getur verið erfitt að melta en það snýst í stórum dráttum um að vera með athyglina á stað og stund án þess að dæma. Í grófum dráttum erum við hér að virkja svæði í framheilanum sem senda skilaboð til möndlu um að við séum hult. Við það róast mandlan. 

Þessi æfing er eitt tól af mörgum sem við getum notað til að draga úr streitu. Til dæmis læddust að mér áhyggjur þegar ég lagðist á koddann í gærkveldi. Ég mundi eftir STOP og komst rétt í aðra umferð þegar ég man síðast eftir mér… og svaf meir að segja alla nóttina án þess að rumska. 

Svona er æfingin: 

S - stoppaðu og taktu stöðuna. Færðu hugann í hér og nú með því að spyrja: Hvernig líður mér? 

Leiddu hugann að höfðinu þar sem hugsanir eru - hvað ertu að segja við sjálfan þig, hvaða myndir koma upp í hugann? Færðu þig að hjartanu þar sem líðan þín er - finnurðu fyrir gleði, ertu hlutlaus, í uppnámi, hræddur, leiður, pirraður..? Einblíndu síðan á allan líkamann þar sem skynjunin er - finnurðu fyrir léttleika, stífleika, verkjum, óróleika o.s.frv.?

Viðurkenndu það sem þú tókst eftir án þess að dæma, jafnvel þó það sé óþægilegt. 

T – Taktu eftir andardrætti þínum. Hægt og rólega beindu athyglinni að önduninni og taktu eftir innöndun og útöndun þar sem þær fylgja hver á fætur annarri. 

Þú getur nýtt andardráttinn sem krók til að draga athyglina á það sem er að gerast hér og nú. Þannig hjálparðu þér að vera meðvitaður um það sem er að gerast núna og komast í ró og kyrrð. 

O – Opnaðu á athygli. Færðu athyglina út fyrir öndunina þannig að þú skynjar líkamann sem heild, líkamsstöðu þína og andlitsdrætti. Færðu athyglina enn lengra og taktu eftir hvað er að gerast í kringum þig: hvað sérðu, hvaða lykt finnurðu, hvaða hljóð heyrirðu o.s.frv. eins vel og þú getur. Færðu athyglina á það sem fram undan er. 

P – Pása. Láttu lífið halda áfram og skoðaðu nýja möguleika án nokkurra væntinga. Færðu athyglina á heiminn í kringum þig, taktu eftir hvernig hlutirnir eru núna. Í stað þess að bregðast við af vana geturðu sett meiri kraft í að vera forvitinn og opinn fyrir nýjum leiðum, svara af eðlisfari í stað vana. Það gæti jafnvel komið þér á óvart hvað gerist næst eftir þessa pásu… 

 

Að lokum

Ég vona að þú hafir lært eitthvað nýtt hér að ofan og sért einu skrefi nær því að skilja hvernig líkaminn okkar starfar. Það er enn margt sem við vitum ekki en fyrir mér er afar dýrmætt að skilja af hverju manni líður eins og raun ber vitni.

Athugið að efnið að ofan er minn persónulegur skilningur á faginu. Það er ekki ætlað sem fagleg kennsla heldur er sett fram sem einföldun á flóknum lífeðlisfræðilegum ferlum. Það er heldur ekki ætlað að koma í staðinn fyrir ráðleggingar heilbrigðisstarfsmanna. 

Ef þú hefur spurningu eða reynslu sem þú vilt deila með mér geturðu sent mér skilaboð á lara@hudin.is. Mér þykir vænt um að heyra frá þér.

Lára G. Sigurðardóttir

 

Heimildir:

STOP æfing: https://palousemindfulness.com/docs/STOP.pdf

Fricchione GL, Ivkovic A & Yeung AS (2016). The science of stress. Living under pressure. The University of Chicago Press, Chicago. 

Gazzaniga, M. S., Ivry, R. B., & Mangun, G. R. (2014). Cognitive neuroscience: The biology of the mind. New York: Norton.

 


Litlir lúmskir blettir

Bletturinn á vinstra læri dökknaði að því er virtist á einni nóttu. Uggur myndaðist innanbrjósts. Að vera af kvíðakyni sem gæti unnið heimsmeistaratitla væri keppt í áhyggjum var ekki að hjálpa mér. Um hugann flugu allar mögulegu verstu útkomurnar. Þangað til framheilinn á mér náði stjórn og sagði stelpunni að líklega yrði þetta allt í lagi. 

Síðustu ár hef ég lært að þegar kvíði bankar upp á hjá mér þá er oftar en ekki hægt að draga eitthvað upp úr fortíðinni sem sendir hann af stað eins og belju sem er hleypt út að vori. Í þessu tilfelli voru það stundirnar þegar ég vann á spítalanum sem læknir; á þessum tíma höfðum við enga lækningu gegn sortuæxli sem hafði dreift sér um líkamann. Allt of oft horfðum við á eftir ungum mæðrum sem greindust of seint með húðkrabbamein. Sorgartilfinningin kraumar enn innanbrjósts við tilhugsunina. Það sem eitt sinn var lítill blettur átti síðar eftir að ræna þær tilverunni. Margt hefur blessunarlega breyst og framfarir orðið í meðferð sortuæxla. 

Það er svo merkilegt með húðkrabbamein að þó svo að maður verði eldri og varkárari þá virðist meinið ekki kæra sig koll og leitar mann uppi, þó svo að maður hafi nú öll vopn á hendi: Hlífðarfatnað, sólhatt, sólgleraugu og sólarvörn. Öruggt skjól frá húðkrabbameinum er ekki til, sérstaklega ef maður hefur sótt í sólböð - hvað þá heldur að “fríska” sig í ljósabekkjum. Sólarvopnin gera sitt gagn en eru ekki 100% örugg. 

Það tók sinn tíma að komast að hjá húðlækni því flestir voru í sumarfríi. Bletturinn var fjarlægður og um leið og niðurstöður úr vefjagreiningu lágu fyrir var ég boðuð í stærri aðgerð því bletturinn reyndist vera sortuæxli á byrjunarstigi og skurðbrúnir ekki hreinar (sem þýðir að það gæti enn verið eitthvað eftir af krabbameininu í húðinni). Fimm sentimetra bútur var fjarlægður af lærinu og í staðinn fékk ég veglegt ör sem minnir mig svo lengi sem ég lifi á hve lánsöm ég var að taka eftir breytingunum svo snemma. Örið minnir mig einnig á að fara reglulega í blettaskoðun til húðlæknis. Það er líka huggun harmi gegn að manninum mínum finnst örið töff. 

Það getur bjargað lífi þínu að vera upplýstur og þekkja líkama þinn, því þú getur séð húðkrabbamein með eigin augum. Þú þekkir þína húð best en húðlæknirinn getur greint hvort blettir eru með útlit sem líkist húðkrabbameini. 

Þekkirðu einkenni sortuæxlis? 

Ef blettur hefur eitt eftirtalinna atriða þá getur það bent til sortuæxlis: 

  1. Ósamhverfur (ef þú skiptir blettinum í helminga þá er annar ekki spegilmynd hins)
  2. Óreglulegar brúnir (ekki sléttar og felldar brúnir)
  3. Fleiri en einn litur (t.d. eins og spælt egg)
  4. Hefur breyst yfir tíma (t.d. stækkað eða breytt um lit)
  5. Kláði eða sár (sérstaklega ef það er sár sem grær ekki eða kláði sem hverfur ekki)
  6. Þvermál er stærra en 6 mm

Þó sortuæxli fari ekki í manngreiningarálit þá eru nokkur atriði sem auka líkur á þeim: 

  1. Ef þú ert með ljósa húð sem brennur auðveldlega
  2. Ef þú hefur brunnið, sérstaklega fyrir 18 ára aldur
  3. Ef þú hefur farið í ljósabekk
  4. Ef þú ert með marga bletti
  5. Ef náinn ættingi þinn hefur greinst með sortuæxli

Umfram allt mundu að sortuæxli er venjulega auðvelt að lækna ef það greinist á byrjunarstigi en getur verið erfitt að eiga við nái það að dreifa sér. Ég þarf núna að mæta í blettaskoðun á hálfs árs fresti en húðlæknirinn þinn mun leiðbeina þér hve oft þú þarft að láta fylgjast með lúmskum blettum.


Tíu leiðir til að halda húðinni heilbrigðri

Það er stundum svo kalt inni hjá mér að ég er ekki viss um að fingurnir á lyklaborðinu séu mínir því ég hef næstum enga tilfinningu í þeim. Og sem verra er, húðin á handarbökunum skreppur saman eins og þurrkuð sveskja - ef sveskja getur verið náhvít á litinn. Allt þetta er tilkomið vegna þess að æðakerfið ákvað að halda hita á "mikilvægari" líffærum. Hvenær ákvað skaparinn að það væri mikilvægara að halda hita á nýrunum en húðinni? Var þetta kannski stríðni sem gleymdist að leiðrétta? Kona hefur hendurnar fyrir framan augun liðlangan daginn - ekki nýrun!

Að öllu gamni slepptu fór ég að skoða fingravettlinga til að nota þegar ég vinn við tölvuna - innandyra í Kaliforníu! Því ekki þýðir að hamra hraðar eða fastar á lyklaborðið. Nýrun gefa sig ekki - hendurnar skulu ekki fá dropa af blóði og hita.

En kona er ekki þekkt fyrir að gefast auðveldlega upp svo hún tók saman nokkur atriði sem hún getur haft stjórn á til að láta húðinni sinni líða betur: 

  1. Verndaðu húðina fyrir kulda og sól. Ef þú stundar útivist verndar þú húðina gegn kulda með því að bera á hana feitt krem, t.d. frá Eucerin eða Vaselín. Ekki láta blekkjast af sólarleysi því UVA geislar lenda á húðinni allt árið um kring og geta endurvarpast í snjó og skýjum, sem gerir þá sterkari. UVA eru geislarnir sem fara djúpt niður í húðina og eru taldir valda mestu öldrunaráhrifunum. 
  2. Gefðu húðinni nægan raka með því að nota krem sem hentar þér. Ef þú ert með þurra húð gæti hjálpað að taka inn ómega-3 fitusýrur úr sjávarríkinu. Margir finna einnig meiri raka eftir að taka inn kollagen, t.d. unnið úr fiskroði. Beinasoð (t.d. úr afgangs kjúklingi) inniheldur þær aminósýrur sem kollagen eru gerð úr. Og mundu að drekka nóg vatn, sérstaklega ef þú drekkur kaffi eða áfengi sem eru vatnslosandi.
  3. Hugsaðu um að næra líkamann en ekki níðast á honum. Flest sem þú getur borðað beint úr lífríkinu er gott fyrir þig - og þú ert það sem þú borðar! Ef þú ert með bólguvandamál í húðinni eins og bólur eða exem þá getur hjálpað að halda sig við fæði sem inniheldur lágan sykurstuðul og stundum hjálpar að taka inn góða gerla þar sem þarmaflóran er nátengd ónæmiskerfinu sem aftur hefur áhrif á húðina. Ráðfærðu þig við lækni eða einhvern sem þekkir til. 
  4. Stilltu hringjara til að minna þig á háttatímann þannig að þú gleymir þér ekki og verður svefnvana enn aðra nóttina - ef svo er komið fyrir þér. Regla á svefni er lykilatriði. Manstu hvernig þér leið þegar þú leist í spegil eftir að hafa sofið bestu nótt lífs þíns? Til dæmis vitum við að djúpsvefninn er mikilvægur fyrir framleiðslu vaxtarhormóna sem hjálpar okkur að endurnýja m.a. húðina. Djúpsvefn minnkar með aldrinum svo nýttu hann meðan þú getur! 
  5. Hreyfðu þig meira en úr rúminu í bílinn og í skrifstofustólinn. Hreyfing örvar blóðflæði og súrefnisflutning til húðarinnar og myndar nýjar blóðæðar þannig að húðin fær meira súrefni og næringu. Undantekning er húðin á höndunum mínum!
  6. Ef streita bankar oft upp á þá er hugleiðsla öflugt tól til að róa hugann og þar með líkamann. Streita getur hraðað öldrun húðarinnar með því að fækka frumum sem framleiða kollagen. Það eru til góð snjallforrit eins og Calm eða Headspace og einnig er hægt að sækja ókeypis námskeið. 
  7. Haltu þig frá ljósabekkjum sem er það alversta fyrir húðina. Útfjólubláir geislar brjóta niður erfðaefni húðfruma og lætur húðina eldast hratt og örugglega. Mun hollara er að taka inn D-vítamín og fá sér í hádegisgöngutúr en að fara í ljós til að hressa upp á sig. 
  8. Segðu skilið við alla tóbaksnotkun. Öfugt við hreyfingu þá veldur nikótín því að æðarnar dragast saman og húðin fær minni næringu. Auk þess minnka efnin í sígarettum súrefnisflutning en súrefni er nauðsynlegt fyrir frumurnar okkar til að endurnýja sig. Húð þeirra sem reykir er þannig í nær samfelldum súrefnisskorti. 
  9. Ýmsar meðferðir geta snúið við öldrunareinkennum og aukið heilbrigði húðarinnar. Best er að panta tíma hjá fagmanni til að fá ráðleggingar um hvaða meðferð gæti hentað þér. Nú er hægt að meðhöndla mörg öldrunareinkenni með tiltölulega einföldum hætti.
  10. Fjárfestu í fingravettlingum, góðri húfu eða öðru sem heldur hita á húðinni. Húðin þarf flæði um æðarnar til að fá allt hráefnið (súrefni og næringarefni) til að endurnýja sig.  

Það sem gerir þig að gulli

Hefurðu leitt hugann að því að leið þín um lífið er einstök. Enginn annar fetar í nákvæmlega sömu fótspor og því getur enginn sett sig fullkomlega í þín spor. Við göngum stundum í gegnum svipaða lífsreynslu en hvernig við upplifum hana er háð erfðum og umhverfi, sem mótar hvert og eitt okkar. Því erum við misvel í stakk búin til að takast á við áföll og lífsins verkefni sem verða á vegi okkar. Auk þess bætist við að lifa á tímum þar sem fullkomnun er gjarnan gert hátt undir höfði og lítið svigrúm gefið fyrir mistök. Við erum fljót að fordæma - okkur sjálf og aðra. Varðhundar eru víða í viðbragðsstöðu eftir tækifærum til að hakka aðra í sig. Það þarf mismikið til að við brotnum niður. 

Þegar líkami eða sál er í molum skiptir máli að koma brotunum saman. 

Japanir eru með fallegt hugtak sem kallast kintsugi sem þýðir að bæta með gulli. Ef postulínsskál brotnar þá fleygja þeir henni ekki heldur gera við hana með lakki og gullpúðri. Umhyggjan og lagfæringin gerir hana fallegri og eftirsóknarverðari - enda er hún nú komin með sögu. Hún verður einstök. 

Hægt er að heimfæra líf okkar á kintsugi, sem minnir okkur á að bjóða ófullkomnun velkomna. Það er í lagi að finna til og vera auðsæranlegur. Að syrgja og upplifa höfnun. Það er í lagi að mistakast, bera ör eða annað mark sem lífið hefur veitt okkur. 

Svo má segja að lífsreynsla setji mark sitt á hörundið. Það gerir okkur samt ekki síðri - heldur einstök. Hvert mark er tákn í sögu þinni sem gerir þig að þeirri manneskju sem þú ert í dag. Sagan verður ekki tekin í burtu en við getum nýtt hana til að auðga líf okkar. Með hverri sögu og broti lærum við eitthvað nýtt sem við getum notað til að styrkja okkur. 

Vefðu örmum utan um brot liðinna tíma - og sjáðu gildi þeirra. Hvað hafa þau kennt þér? Kintsugi minnir okkur á að með umhyggju er hægt að hlúa að okkar eigin brotum og fegra þau. 

Og umfram allt, gakktu með þá visku að þín brot eru einstök, ólík öllum öðrum. Það eru bættu brotin sem gera þig að gulli!

 

Lára G. Sigurðardóttir

 


Halló vetur!

Við erum vön að setjWinter-alesia-kazantceva-gj80u3CgKvM-unsplasha vetrardekk undir bílinn þegar frysta tekur en fær húðin okkar næga athygli þegar kuldaboli byrjar að bíta í kinnar! Hvað gerist þegar kólnar í veðri - af hverju líta t.d. handarbökin út fyrir að vera tíu árum eldri? Og til hvers ættum við að verja húðina fyrir kulda?

Þegar kólnar í veðri lækkar rakastig gjarnan í andrúmsloftinu sem þýðir að loftið verður þurrt og dregur til sín raka úr húðinni. Rakinn í ysta húðlaginu er nátengdur rakanum í loftinu og þegar loftið er þurrt þá upplifum við húðþurrk. Þegar við skrúfum frá ofnunum þá þornar loftið innandyra enn meira og getur hæglega farið niður fyrir 40% en allt fyrir neðan það gildi getur valið óþægingum í húð og slímhúð. Kaldur vindurinn gerir vont verra og hætta er á að exem og psóríasis blossi upp. 

 

Aldurinn tekur sinn toll

Með aldrinum verða nokkrar breytingar á húðinni sem eykur líkur á þurrki. 

  • Fitukirtlum í húðinni fækkar en náttúrulega olían frá þeim hafði áður séð til þess að halda raka í húðinni.
  • Náttúrulegt rakaefni (hýalúrónsýra) í miðlagi húðarinnar minnkar en það er afar sækið í vatn og getur hengt á sig þúsundfalda þyngd sína af vatni. 
  • Húð sem er með uppsafnaðar sólarskemmdir er oft þynnri og með minni getu til að halda raka.

Því finnum við sem eldri erum oft meira fyrir húðþurrki á veturna sem getur haft í för með sér kláða, varaþurrk og sprungna húð. Í þessari myrku mynd sem ég hef málað má samt finna ljós. Við getum nefnilega beitt ýmsum brögðum til að sigrast á kuldabola. 

 

Leiðir til að halda raka í húðinni

  1. Klæða sig í hlý föt. Í kulda dragast æðarnar í húðinni saman til að varðveita líkamshita og með því að klæða sig vel helst eðlilegt blóðflæði til húðarinnar. Svæðin sem verða mest fyrir barðinu eru þau sem standa mest út, eins og fingur, tær, nef og eyru. Í alvarlegum tilfellum getur kuldi leitt til kals og dreps í húð. Það er sjaldgæft að verða fyrir kali en þetta minnir okkur á að vernda húðina fyrir kulda. Slæður og treflar koma að notum til að verja andlitið og grifflur ættu í raun að komast aftur í tísku! Heitir drykkir (mælt með upp að 60°C) geta sömuleiðis hjálpað okkur að ná upp líkamshita. 
  2. Rakagefandi krem eru lífsbjörg fyrir húðþurrk. Þau hjálpa til við að halda raka í ysta húðlaginu og loka rakann inni. Athugaðu að kremið sem hentaði þér í sumar er mögulega ekki nógu rakagefandi fyrir veturinn. Rakakrem innihalda oftast þrjár tegundir af efnum: 1) efni sem draga í sig raka (e. humectants) t.d., glycerin, propylene glycol, butylene glycol, sorbitol o.fl.; 2) efni sem loka raka inni, t.d. petrolatum, lanolin og mineral oil, og; 3) mýkjandi smyrsli sem styrkja varnir ysta húðlagsins, t.d. linoleic eða linolenic acid og ceramides. Sum krem innihalda hátt hlutfall af vatni sem henta síður í lengri útivist í köldu veðri og þá er oft betra að nota feit krem sem innihalda paraffin eða lanolin en þau mynda filmu á húðinni og halda vel raka í húðinni. 
  3. Sólarvörn allt árið í kring. Ef þú vilt að húðin eldist vel skiptir máli að nota sólarvörn á veturna. UVA geilsar dynja á okkur allt árið - þó svo að sólin sé lægra á lofti og skýjað (allt að 80% af geislunum smjúga í gengum ský). UVA eru kröftugir geislar og berast í gegnum gler inn í óvarða húð. Ef maður er á sjó eða í snjó þá er sólarvörnin enn mikilvægari því geislarnir endurvarpast og verða sterkari. Athugaðu að sólarvörnin sé breiðvirk (þ.e. bæði fyrir UVA og UVB) og amk SPF 30 á tveggja tíma fresti. Þeim sem eru með þurra húð finnst oft þægilegt að bera zink oxide (mineral sólarvörn) á húðina en zinkið er græðandi. 
  4. Nærðu húðina innan frá. Ef þú ert með þurra húð getur hjálpað að taka inn ómega-3 fitusýrur úr sjávarríkinu (líkaminn á erfiðara með að nýta ómega-3 úr jurtaríkinu) en athugaðu að það getur tekið tvo mánuði fyrir árangur að koma fram. Þeir sem eru á blóþynnandi lyfjum eða með aukna blæðingarhneigð ættu að ráðfæra sig við lækni áður en ómega-3 er bætt á matarlistann. Margir finna fyrir auknum raka í húð eftir að taka inn kollagen og það er einnig gott að muna eftir að drekka vatn, sérstaklega ef þú drekkur kaffi eða áfengi sem eru vatnslosandi. Það er ekki vísindalega staðfest að átta vatnsglös á dag sé nauðsynlegt en gott er að miða við að þvagið sé ljósgult. Þegar við erum í vökvaskorti þá losar hýalúrónsýra sig við vatn í miðlagi húðarinnar. Og svo er gott að muna að ávextir og grænmeti innihalda mikið af vökva ásamt góðum næringarefnum fyrir húðina. 
  5. Stutt og volg sturta fer betur með húðina þó svo að það sé freistandi að fara í langa heita sturtu þegar manni er kalt. Líkt og þegar þú vaskar upp þá skolar heitt vatn betur fitu af diskunum. Sama gildir um húðina. Heita vatnið getur fjarlægt náttúrulegar olíur á húðinni og valdið enn meiri uppgufun raka frá húðinni. Gott er að miða við 5-10 mínútur í senn og setja rakakrem um leið og þú stígur úr baði eða sturtu til að innsigla rakann í húðinni. Sama á við eftir handþvott. 
  6. Vera spar á sápu. Eins og sápa hreinsar vel fitu af diskum í uppvaskinu þá hreinsar hún einnig vel okkar náttúrulegu fitu á húðinni. Þú átt ekki að þurfa að nota sápu fyrir líkamann (hendur eru undantekning). Sumir geta ekki verið án sápu og þá skiptir máli að velja sápu í föstu formi án ilmefna, sem er ekki eins ertandi og fljótandi sápa sem gjarnan er með fleiri aukefni sem erta og þurrka húðina meira. Svo er hægt að nota eins lítið og þú kemst upp með, e.t.v. bara í handarkrika. Ef hendur eru þurrar geturðu prófað að skipta í fasta handsápu og sjá hvort þurrkurinn minnki ekki. 
  7. Mild þvottaefni. Þvottaefni sem eru sterk og innihalda ilmefni geta ert húðina. Ef húðin er þurr og kláði í henni þá getur skipt sköpum að nota milt þvottaefni og lítið af því. Og sleppa mýkingarefnunum, þau eru oft ertandi. 
  8. Nota rakatæki innandyra og hafa það stillt á um 60% hjálpar sumum. 
  9. Vefnaður getur ert. Sumir eru viðkvæmir fyrir ull og öðrum efnum þannig að það er gott að vera á varðbergi hvort einhver klæðnaður espi upp þurrkinn. 
  10. Nota á varir feit smyrsli sem innihalda paraffín (t.d. Eurcerine), petroleum jelly (t.d Vaselín), lanólín (t.d. Lansinoh) eða annað milt eins og bíflugnavax eða shea butter. Í mörgum varasölvum eru bragðefni sem geta ert varirnar og aukið þurrk. Freistandi er að sleikja þurrar varir en athugaðu að það gerir þær enn þurrari.
  11. Ef engin ráð duga skaltu heyra í lækni eða húðsjúkdómalækni. Sjúkdómar eins og vanvirkur skjaldkirtill, sykursýki eða ýmsir húðsjúkdómar geta valdið húðþurrki. 

 

Ég óska ykkur góðra stunda framundan með kósýheitum, kertaljósum og roða í kinnum.

 

Lára G. Sigurðardóttir


Hin sanna fegurð

Hefurðu einhvern tíma fengið athugasemd um útlit þitt? Sjálf hef ég í gegnum tíðina fengið meira en ég kæri mig um. Nefið ku vera stórt, ennið hátt og handleggir stuttir eins og á mörgæs. Verandi með miðlungs sjálfstraust ferðaðist ég lengi með þá tilhugsun að láta minnka á mér nefið - aðeins erfiðara að eiga við handleggina og ennið! Ég prófaði þó að klippa á mig topp en hann varð svo grisjóttur og langur á himinháu enninu að það var eins og ég hefði reynt að fela ennið bakvið léleg gegnsæ strimlagluggatjöld. 

Það er víst ekkert nýtt af nálinni að fólk sé að skipta sér af útliti annarra og gefa illa ígrundaðar athugasemdir. Ég hef samt smá áhyggjur af þróuninni. Starfs míns vegna fylgist ég talsvert með fegrunariðnaðinum og verð að segja að ég set stórt spurningarmerki við þá stefnu sem hann er að taka. Risar innan fegrunariðnaðarins keppast við að selja okkur eina uppskrift að fegurð. Andlitið þarf að vera í ákveðnum hlutföllum. Ef þú ert með litla höku þá er sett fylliefni til að hakan myndi ákveðna horngráðu við nefið. Ef kjálkalínan er ekki nógu áberandi þá er hún dregin út og skerpt. Ef nefið er of stórt þá er það minnkað í ákjósanlega stærð og ef það er of lítið þá eru sett fylliefni til að stækka það. Ef lengdin frá nefrót að efri vör er of mikil þá er hún stytt. Ef kinnbeinin eru ekki nógu stór þá er bætt í þau og ef það er of mikil barnafita í kinnunum þá er hún fjarlægð. Útkoman: við verðum öll eins! 

Þetta er bara andlitið. Ég ætla ekki að fara út í líkamann!

Fegrunariðnaðurinn er búinn að færa fegurðarstaðlana langt út fyrir hin svokölluðu fullkomnu hlutföll líkamans sem Leonardo DaVinci teiknaði kringum 1490 sem Vitruvian Man eftir skýringum Rómverska arkitektsins Vitruvius. 

Markhópur fegrunariðnaðarins eru gjarnan stúlkur sem eiga eftir að taka út fullan líkamlegan þroska. Og framheilinn - sem er framkvæmdastjóri skynsamlegra ákvarðana - nær heldur ekki fullum þroska fyrr en við nálgumst þrítugt. Þannig að þegar maður er ungur þá er maður líklegri til að fylgja skyndihvötum sem verða til í frumstæðari svæðum heilans. 

En hver er hin sanna fegurð?

Þó lengi hafi verið vitað að við löðumst ósjálfrátt að andlitum sem eru samhverf þá kemst maður að því þegar maður kynnist manneskju að raunveruleg fegurð snýst um eitthvað allt annað. Fyrir mér er sönn fegurð eitthvað allt annað en andlitshlutföll. Þú getur horft á manneskju sem er með fullkomin andlitshlutföll en gefur ekkert af sér og er sjálfhverf. Þú getur einnig horft á manneskju sem er með stórt nef og litla höku sem er gullfalleg og geislandi - því hún fær þig til að brosa og lífgar upp á tilveruna. 

Fegurð er allskonar. 

Ég sé til dæmis fegurð þegar manneskja leggur sig fram um að vera til staðar fyrir aðra manneskju. Ég sé fegurð þegar hjón eru búin elska hvort annað meirihluta ævinnar. Ég sé fegurð þegar einstaklingur ber erfiða lífsreynslu sína með reisn. Ég sé fegurð þegar vinkonur hittast eftir fjarveru til að heyra hvernig hin hefur það. Ég sé fegurð þegar vinir hittast til að spila saman eða horfa á leik. Ég sé fegurð þegar maðurinn minn eða synir gefa mér herðanudd þegar ég er að bugast af vöðvabólgu. Ég sé fegurð þegar mamma eldar handa mér uppáhaldsmatinn. Ég sé fegurð þegar ég sé fólk syrgja náinn ættingja eða vin. Ég sé fegurð þegar fólk fylgir eigin sannfæringu og stendur fyrir því sem það trúir. Ég sé fegurð þegar nýtt líf kviknar. Ég sé fegurð þegar ég verð vitni að hamingju annarra. Ég sé fegurð þegar fólk býr sér til fallegt umhverfi og nýtur lífsins. Ég sé fegurð þegar manneskja er umburðarlynd gagnvart annarri manneskju. 

Þetta er hin sanna fegurð fyrir mér. 

Sönn fegurð getur verið eitthvað allt annað fyrir þér. 

Nú er ég alls ekki á móti fegrunarmeðferðum - ekki misskilja mig - og finnst sjálfsagt að hugsa vel um húðina, líkt og við gætum þess að hreyfa okkur, fá góðan svefn og borða helena-lopes-e3OUQGT9bWU-unsplashnæringarríkan mat. En það er eitt að gangast undir meðferðir til að viðhalda hraustlegu útliti eða fríska upp á sig - og annað að breyta útlitinu til að falla undir ákveðna staðalímynd fegrunarriðnaðarins, sem ég er ekki viss hvaðan kemur. Með þessum hugleiðingum er ég heldur ekki að áfellast einn né neinn fyrir að vilja breyta útliti sínu því það er að sjálfsögðu val hvers og eins - hvorki mitt né annarra að dæma. Það er aftur á móti mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum staðli sem fegrunariðnaðurinn er að koma á fót. Því þegar við sjáum þessa tilbúnu staðalímynd er hætt við því að við hugsum með okkur - ég fell ekki undir þennan staðal, ég þarf að breyta mér!

Móðir mín elskuleg þreyttist aldrei á að benda á eitthvað jákvætt þegar athugsemdirnar um útlitið skutu upp kollinum - hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það! Það dugði fyrir mér. Stundum þarf bara að heyra orð einnar mannsekju um að þú sért í lagi eins og þú komst í heiminn. 

Er fegurð ekki einmitt eitthvað sem hittir í hjartastað og vekur upp vellíðunartilfinningu? Í dag þykist ég viss um að minna nef og lægra enni hefði ekki haft slík áhrif. 

Lára G. Sigurðardóttir

 


Sólbruni í skýjunum

Það er svo merkilegt að þó maður viti eitthvað upp á tíu þá fer maður ekki endilega eftir því. Það var alskýjað þennan dag þarna sem ég var stödd með fjölskyldunni í klifurferð hátt upp í fjöllum Ítalíu - svo hátt að við komumst í snertingu við skýin. Það var ekkert sérstaklega hlýtt. Líklega vegna veðuraðstæðna vorum við ekki innstillt á að vernda húðina og bera á okkur sólarvörn.

Sem mér finnst skrítið til að hugsa eftir á því ég hafði skömmu fyrir ferðina lesið yfir og gert athugasemdir við skýrslu um skaðsemi útfjólublárra geisla fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Auk heldur hafði ég rifjað upp og skrifað fræðsluefni fyrir þáverandi vinnustað minn um hvernig útfjólubláir geislar geta leikið okkur grátt.

 

Sólin elskar allt nema…

Sólarströnd. Mynd frá Unsplash: Federico Giampieri.Þegar sólinni loksins skín þá lifnar allt við, meira að segja mannsandinn. Hvernig má það þá vera að sólin sem heldur í okkur lífi geti einnig skaðað okkur? 

Rannsóknir benda til þess að allt að 90% af öldrun húðarinnar megi rekja til sólarinnar. Húðin verður slöpp, fær línur, æðaslit, ójafna áferð, sólarbletti og jafnvel húðkrabbamein. Það sem við teljum stundum eðlilega öldrun er oft á tíðum einfaldlega afrakstur sólbaða. Prófaðu að bera saman húð sem sól skín sjaldan á og oft til að sjá hve sólin hefur látið húðina eldast.

Mynd af sólarströnd frá Unsplash: Federico Giampieri. 

 

Þegar sólin er varasömust

UVA og UVB geta verið lúmskir því þeir kveikja ekki hitanemunum í húðinni sem myndu vara okkur við. Hér eru nokkrar staðreyndir um sólargeislana:

  1. Því hærra sem sól er á lofti, því sterkari eru sólargeislarnir. Hámark er venjulega milli kl. 10 og 16 en fer eftir staðarklukku og breiddargráðu. Á vefsíðunni Timeanddate (https://www.timeanddate.com/sun) geturðu fylgst með hádegi á hverjum stað. Þar sérðu t.d. að hádegi í Reykjavík er oftast í kringum 13:30.
  2. Því lengur sem þú ert í sólinni, því meiri skaða geturðu orðið fyrir. Til að fá nóg D-vítamín þarftu ekki að vera lengur úti en um 10-15 mínútur í ermalausum bol eða stuttbuxum.
  3. Því nærri miðbaug sem þú ert, því sterkari eru geislarnir. Þá er afar varasamt að fljúga frá norðurslóðum suður á bóg og fara beint í sterka sól þegar húðin  hefur ekki fengið tíma til að aðlagast.
  4. Því hærra yfir sjávarmáli sem þú ert því sterkari eru geislarnir og meiri líkur á að69 ára maður sem keyrði vörubíl í 28 ár brenna. Því er góð regla að fara aldrei af stað upp á fjall án þess að smyrja á sig sólarvörn, hafa höfuðfat og annan fatnað sem ver húðina.
  5. Um 80% af UV-geislum fara í gegnum skýin sem geta auk þess endurspeglast frá sumum skýjum. Sömuleiðis geta sólargeislarnir endurvarpast frá yfirborði, sérstaklega vatni og snjó.
  6. UVA geislar ná til húðarinnar allt árið um kring en UVB eru sterkastir á sumrin á okkar slóðum. UVA geislarnir smjúga í gegnum rúðu þannig að ef þú situr inni í bíl eða húsi þá geta þeir skaðað húðina. Sjá mynd af 69 ára karlmanni sem keyrði vörubíl í 28 ára (mynd: New England Journal of Medicine).
  7. Ýmiss lyf geta gert húðina viðkvæmari fyrir sólinni. Dæmi eru sýklalyfið docýcyklín (t.d. Doxylin), þíasíð þvagræsilyf (t.d. Cozaar Comp og Darasíð), bólgueyðandi gigtarlyf (t.d. Íbúfen, Voltaren, Naproxen) og náttúrulyfið Jónsmessurunni (St. John’s worth).

 

Brennd og brún húð

Þegar við brennum þá hafa sólargeislarnir náð að skaða húðfrumur sem ræsir ónæmiskerfið til að hreinsa burt dauðar frumur og laga skemmdirnar sem eftir eru. Vegna bólgunnar þá er meira blóðflæði í húðinni og okkur getur fundist við líta frísklega út - svo lengi sem við erum ekki illa brunnin!

Húðin er klókt líffæri og hefur innbyggða hæfni til að verjast sólargeislunum. Þegar geislarnir lenda á húðinni fer ákveðin tegund af frumum (melanócýtar) að framleiða melanín, sem er litarefnið sem gefur húðinni brúnan lit. Hversu mikið melanín húðin getur framleitt er erfðatengt. Sumir eiga létt með það á meðan hjá öðrum framleiðir hún lítið sem ekkert af melaníni, eins og albinóar.

Það má hugsa um melanín sem einskonar regnhlíf, sólargeislana sem regndropa og þig sjálfan sem húðfrumu. Því brúnni sem húðin er að upplagi því stærri er regnhlífin og því minni líkur á að sólarregnið nái að skaða þig. Ef þú ert ljós á hörund er regnhlífin þín eins og kokteilsólhlíf sem gefur litla vörn.

Fyrir utan skaðann sem geislarnir valda húðinni þá geta þeir einnig aukið líkur á að fá ský á auga eða önnur augnvandamál. Og mikilvægt er að átta sig á að börn hafa þynnri og fíngerðari húð og því hættari við að brenna en fullorðnum. Börn sem brenna fyrir táningsaldur eru talsvert hættara við að fá húðkrabbamein síðar á ævinni.

 

Örugg í sólinni

Meðalvegurinn er oft vandrataður en það eru þekktar leiðir til hans. Í fyrsta lagi er mikilvægt að velja breiðvirka sólarvörn, þ.e. sem verndar húðina bæði gegn UVA og UVB geislum. UVB eru ábyrgir fyrir bruna en UVA geislarnir ná dýpra í húðina og eru mikið til ábyrgir fyrir öldrun húðarinnar. Báðir geta valdið húðkrabbameinum.

Mynd af sólhlífum frá Unsplash: Photo by Jean-Philippe DelbergheSem dæmi þá er avobenzone algengt innihaldsefni sólarvarna því það síar út bæði UVA og UVB geisla þar sem það tekur upp UV-geisla af bylgjulend 290-400 nm. Avobenzone getur verið óstöðugt og því eru efnin octocrylene og mexoryl of notuð samhliða til að vörnin endist lengur. Önnur efni sem hafa breiðvirka vörn eru zinc oxide og titanium dioxide, sem fólk með viðkvæma húð þolir oft betur. Fólk með feita húð þolir oft betur gel eða sprey en fólk með þurra húð sækir oft frekar í krem. 

Þá þarf sólarvörnin að vera 30 SPF eða hærra og bera hana á hálftíma áður en farið er í sól. Fatnaður, sérstaklega með SPF vörn, höfuðfat og skuggi eru allt atriði til að hafa í huga. Og síðast en ekki síst sólgleraugu með breiðvirkri vörn.

Börn læra að bera á sig ef við kennum þeim mikilvægi þess og komum sólarvörn inn í daglega venju, t.d. bera á sig eftir að bursta tennur á morgnana. Annað sem hjálpar er að leyfa barninu að velja með þér sólarvörn, t.d. sprey eða krem. Skýjaður himinn getur verið varasamur því þá þola börn það að vera lengur úti og finna ekki áhrifin af sólinni. Mynd af sólhlífum frá Unsplash: Photo by Jean-Philippe Delberghe

 

Gjóaðu eftir öðru en hitanum

Þegar þú skoðar veðurspána gjóaðu þá augunum eftir UV-index því hann segir þér talsvert um hversu líkleg/ur þú ert til að brenna. Eftir því sem hann er hærri skal hafa í huga að nota meiri varnir, t.d sólarvörn, sólgleraugu, fatnað, höfuðfat og sólhlíf ef UV er mjög hár (10-15). Á vefsíðunni Sunburn map (https://sunburnmap.com/) geturðu slegið inn staðsetningu, valið húðgerð og séð hversu langan tíma tekur fyrir þig að verða rauð/ur eða brenna og hvaða vörnum mælt er með. 

 

Gleðilega sólardaga

Eins mikið og lifnar yfir þegar sólin skín þá fer okkur best að hugsa vel um húðina, því Mynd af stúlku frá Unsplash: Gian Cesconokkur var bara gefin ein húð. Sjálf féll ég á raunveruleikaprófinu - við brunnum öll í fjallinu, líka börnin mín. Ég varð eðlilega örg út í sjálfa mig því þetta hefði ekki þurft að fara svona. En maður notar reynsluna sér næst sér til varnar. Það er nefnilega ekki nóg að vita hlutina, maður þarf að fara eftir þeim.

Lára G. Sigurðardóttir


Allt nema hamingja og svefn. Nr.IV

Með kollageni fáum við 19 af þeim 20 aminósýrum sem líkami okkar notar til að byggja ýmiss prótein, ensím og fleira til að halda okkur gangandi. Sjálfur getur kroppurinn búið til tíu aminósýrur en hinar tíu þurfum við að fá með matnum okkar. Eina aminósýran sem við fáum ekki með kollagen fæðubótarefnum  er sú sem telst uppspretta gleði og svefns - tryptófan er nefnilega aðalhráefni serótóníns sem er hamingjuhormón og melatóníns sem er svefnhormón.

Það er reyndar ein matartegund sem sér okkur fyrir öllum lífsnauðsynlegum aminósýrum. Egg er ein af mínum uppháldsfæðutegundum því þau eru afar næringarrík og saðsöm. Ég tek alltaf með mér 1-2 egg þegar ég fer í flug, sem slær strax á þegar hungurverkirnir gera vart við sig. Ekki það að það sé alslæmt að vera svangur af og til en fyrir þá sem verða geðstirðir með tóman maga þá er betra fyrir alla að leyfa hungurverkjum að knýja á dyr þegar maður er ekki innan um margt fólk.  

Til að fá nóg af tryptófani er hægt að borða reglulega lax, alifuglakjöt (kjúkling, kalkún, gæs), egg, spínat, fræ og hnetur. Soðið egg ásamt blöndu af fræjum og hnetum er því góð leið til að fylla á tryptófan-tankinn.

 

Sterkari og unglegri húð?

Fleiri og fleiri rannsóknir sýna nú að ef maður tekur kollagen daglega í 6-12 vikur þá getur teygjanleiki og raki aukist í húðinni og andlitslínur orðið minna áberandi. Svo virðist sem líkaminn geti nýtt sér aminósýrur og lítil peptíð úr kollagen fæðubótarefni og vísbendingar eru um að það geti gefið smiðunum spark til að framleiða meira kollagen auk þess að hafa taumhald á skemmdarvörgunum sem við töluðum um í fyrri pistli. Sem dæmi reyndust 35 til 55 ára konur sem tóku 2.5 eða 5 grömm af kollageni daglega í átta vikur með meiri teygjanleika í húðinni miðað við þær sem tóku ekki kollagen. Önnur rannsókn sýndi að konur sem tóku einungis 1 gramm á dag af kollageni í 12 vikur voru með 76% minni þurrk í húðinni, 12% minni hrukkur, betra blóðflæði í húðinni og mældust með 6% meira kollagen. Fjórum vikum eftir að meðferð lauk voru eldri konurnar enn með meiri teygjanleika í húðinni í samanburði við þær sem tóku lyfleysu. Áhrifin hafa reynst mest hjá þeim sem eru komin yfir þrítugt.

Kollagen virðist einnig geta flýtt fyrir að sár grói og hjálpað til við myndun nýrra blóðæða en ein rannsókn sýndi að sár gréru tvisvar sinnum hraðar hjá þeim sem tóku kollagen þrisvar á dag í 8 vikur.  

Þrátt fyrir allt eru rannsóknirnar enn tiltölulega fáar og ekki enn komnar nógu margar fram til að leiða okkur í sannleikann um gagnsemi eða ógagnsemi kollagen fæðubótarefna. Annað sem þarf að hafa í huga er að gleypa ekki strax við rannsóknarniðurstöðunum sem gerðar eru af framleiðendunum sjálfum því í slíkum rannsóknum er hættara við að útkomunni hafi verið hagrætt þeim í vil.

 

Getur kollagen verið skaðlegt?

Þekkt er að kollagen fæðubótarefni geti haft aukaverkanir eins og meltingaróþægindi en það er oft eitthvað sem lagast með tímanum. Ef þú ert með ofnæmi fyrir fisk þá er kollagen úr sjávarfangi sennilega ekki fyrir þig. Kollagen er heldur ekki hentugt fyrir grænmetisætur þar sem það er unnið úr dýraafurðum.

Menn hafa haft áhyggjur af að nautin sem notuð eru til framleiðslu kollagens gætu verið smituð af kúariðu sem geti valdið taugasjúkdómnum Creutzfeldt-Jakob hjá okkur mönnunum en nú hefur verið sýnt fram á að líkur á smiti eru litlar sem engar. Aftur á móti hafa kannanir sýnt að fæðubótariðnaðurinn selur ósjaldan vörur undir fölsku flaggi því eftirliti er oft á tíðum ábótavant og við stikkprufur hefur reynst lítið sem ekkert af auglýstu fæðubótarefni í viðkomandi vöru. Ég myndi því gefa mér tíma til að velja framleiðslufyrirtæki sem er með vottun fyrir framleiðslunni.

Annað sem menn hafa haft áhyggjur af er að vefirnir sem notaðir eru við framleiðslu kollagens sogi til sín þungmálma sem geti verið skaðlegir líkamanum. Því taka nú mörg framleiðslufyrirtæki fram að varan þeirra sé prófuð fyrir þungmálmum til að tryggja að þeim sé haldið í lágmarki.

Sjálf hef ég verið að prófa ýmsar tegundir (sjá mynd) og fékk slæmt mígrenikast eftir að Kollagenhafa tekið inn kollagen unnið úr nautgripum en ég er ein af þeim sem þoli illa rautt kjöt og fæ til dæmis liðverki eftir að neyta þess. Ég vaknaði um miðja nótt með versta höfuðverk sem ég hef upplifað og var nokkra daga að jafna mig á eftir. Hvort það tengist beint viðkomandi kollageni get ég ekki fullyrt um en er rög við að gefa þessu aðra tilraun. Ég prófaði einnig að taka kollagen frá erlendu fyrirtæki sem ég hætti fljótlega að taka því mér varð óglatt af því. Aftur á móti hef ég tekið inn kollagen á fastandi maga bæði frá Feel Iceland og Protis og þoldi vel hvoru tveggja - þetta er ekki auglýsing! Þannig að ein tegund af kollageni hentar ekki öllum og best að fullvissa sig hvaðan það kemur. Eins og íslenska grænmetið - þú veist hvaðan það kemur!

 

Erum við að tala um æskubrunn eða nýtt æði?

Af öllu því sem ég hef komist að um kollagen fæðubótarefni eru vísbendingar um að það geti haft jákvæð áhrif á húðina en framtíðin á eftir að leiða það betur í ljós. Það er sæmileg uppspretta próteina og innihalda sjaldnast salt eða sykur sem er oft stærsti hluti svokallaða próteinstykkja.

Um þremur vikum eftir að ég byrjaði að taka inn kollagen birtust augnhárin aftur eins og ekkert hefði í skorist. Mín tilfinning er sú að mig hafi skort ákveðnar aminósýrur því ég borða lítið af kjöti. Hvort andlitslínurnar hafi minnkað veit ég svo sem ekki en mér finnst húðin hafa fallegri áferð hvort það sé kollageninu að þakka eða einhverju öðru. En ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu annað en að hver prófi fyrir sig í þrjá mánuði og meti sjálfur árangurinn. Við erum öll ólík og það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum.

Í lokin læt ég fylgja með eina kollagenuppskrift sem er vinsæl á okkar heimili.

Kollagenbomba

Brúna í olíu lauk og gulrót (smátt skorið) með salti og pipar. Kjúklingabein sett út í pottinn ásamt vatni sem þekur beinin. Soðið við vægan hita í amsk 4 klst og beinin fjarlægð. Sjóðið núðlur. Sítrussafi er svo upplagður á kantinum til að fá C-vítamín svo húðin geti nýtt kollagenið. Einn bolli af kjúklingasoði inniheldur um 6 grömm af kollagen-peptíðum.

 

Lára G. Sigurðardóttir

 


Smiðir húðarinnar. Nr.III

Í húðinni þinni eru kröftugir smiðir að störfum allan sólarhringinn - eins og smiðirnir sem eru að gera borg og bæi fegurri. Nema smiðirnir í húðinni (kallast réttu nafni bandvefsfrumur) smíða aðallega kollagen og aðra góða muni. Í húðinni er mest smíðað á miðhæðinni (leðurhúð) en líka á öðrum hæðum og víðar í kroppnum.

 

Ómissandi verkfæri

Eins og húsasmiður notar hamar til að smíða þá notar kollagensmiður C-vítamín til að byggja kollagen. Án C-vítamíns getur hann ekki búið til kollagen og án kollagens verða blóðæðar, sinar og húð brothætt. Það er tiltölulega lítið mál að fá nóg C-vítamín,  til dæmis með því að borða daglega grænt grænmeti eða ferskan sítrusávöxt eins og appelsínu eða greipaldin.

Á átjándu öld var ekki óalgengt að sjómenn og aðrir sem ferðuðust lengi við erfiðar aðstæður upplifðu mikla þreytu og stoðkerfisverki, blæðingar í húð, sár gréru ekki, þeir fengu tannholdsbólgu og misstu jafnvel tennur. Skoski læknirinn James Lind (1716-1794) sem er oft nefndur frumkvöðull næringarfræðinnar gerði tilraunir á sjómönnum sem veiktust á langferðum sínum og uppgötvaði orsökina. Hann nefndi sjúkdóminn skyrbjúg (e. scurvy) og lækningin var sítróna eða appelsína. Sjúkdómseinkenni sjómannanna voru afleiðing skorts á kollageni.

 

Annar veikist og hinn styrkist

Eftir 25 ára aldur fara smiðirnir að þreytast og á sama tíma eflist skemmdarvargur nokkur sem gengur undir nafninu Kollagenasi en hann býr einnig á miðhæðinni og hefur ánægju af því að brjóta í sundur kollagen. Félagi hans Gelatínasi er duglegur að hjálpa honum. Þeir tilheyra genginu MMP (matrix metalloproteinases) sem er þekktast fyrir að brjóta niður prótein eins og kollagen.

Langvinn bólga er eldsneyti fyrir MMP gengið sem brýtur kollagen hraðar niður. Það er líkleg ástæða þess að fólki finnst húðin oft eldast hraðar eftir langvinn veikindi eða streitu. Sólböð, bólguhvetjandi mataræði (sykur getur aukið bólgusvörun en ávextir og grænmeti minnkað), mengun og reykingar eru einnig vatn á myllu þeirra félaga. Gengi þetta er þó ekki alslæmt því meðlimir þess hjálpa t.d. til við að láta sár gróa, t.d. með því að láta líkamann hreinsa vef sem hefur skaddast.

 

Nettó tap yfir ævina

Þar sem skemmdarvargarnir eflast á sama tíma og smiðirnir þreytast þá töpum við árlega um 1% af kollageni eftir 25 ára aldur. Þegar kemur að tíðahvörfum þá tapast kollagen enn hraðar. Konur missa allt að 30% af kollageni fyrstu fimm árin eftir upphaf tíðahvarfa - en það er einmitt ekki óalgengt að konur upplifi að húðin slappast hraðar eftir tíðahvörf. Eftir þetta tímabil verður nettó tapið um 2% á ári.

Með hækkandi aldri tapar húðin þannig styrkleika, verður slappari og myndar línur eða fellingar. Bæði verður hún lélegri að framleiða nýtt kollagen og það er brotið hraðar niður.

 

Hvað er til ráða?

Þá spyr maður sig - getur maður eitthvað gert til að vinna á móti þessu? Eins og fyrr sagði skiptir máli hvernig við lifum lífi okkar dags daglega. Það að sofa vel hjálpar líkamanum að endurnýja sig, að hreyfa sig reglulega er oft sagt besta yngingarmeðalið, að borða vel af grænmeti og ávöxtum sér okkur fyrir bólguhamlandi andoxunarefnum, og síðast en ekki síst að gefa okkur tíma til að slaka á - að gefa sjálfum okkur tíma og umhyggju. Flest öll verkefnin sem við erum að stressa okkur á geta beðið.

Síðan eru ýmsar húðmeðferðir sem örva kollagen myndun. Ein mest rannsakaða meðferðin er laserlyfting sem oft er nefnd andlitslyfting án skurðaðgerðar og virkar þannig að hún gefur smiðunum aukinn kraft til að framleiða kollagen. Einnig verður kollagen aukning þar sem potað er í smiðina með nál eins og í dermapen meðferð eða eftir stungu t.d. þegar verið er að koma fylliefnum undir húð.

Nú vilja vísindamenn meina að litlu peptíðin sem við fáum í kollagen fæðubótarefni gefi smiðunum meiri orku til að vinna hraðar og byggja meira kollagen en í næsta og síðasta pistlinum um kollagen ætlum við að skoða rannsóknir á kollageni og ég ætla að segja frá minni upplifun af mismunandi tegundum kollagens.

 

Lára G. Sigurðardóttir

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband