Fimm vinsælustu húðmeðferðirnar fyrir herra
13.1.2025 | 09:07
Karlmennskan hefur þvælst fyrir sumum þegar kemur að húðumhirðu. Á meðan sumar konur fara létt með fimm-skrefa húðrútínu eiga margir karlar í erfiðleikum með að taka eitt einasta skref. Ég þekki nokkra sem yrðu himinlifandi að hafa allt í einni vöru - sjampó, sápu, andlitshreinsi og andlitskrem! Starfs míns vegna vildi ég geta sagt að maðurinn minn væri að stelast í kremin mín. Hið sanna er að það tók mig langan tíma að fá hann til að byrja að nota andlitskrem. Eitt krem. Nú nokkrum árum síðar vinn ég hörðum höndum að fá hann til að nota einnig C-vítamín serum undir kremið. Það gengur misvel. Skrefin eru þung í húðrútínu herrans á mínu heimili. En hver segir að það sé ekki karlmannlegt að sinna húðinni?
Húðin er það líffæri sem verður mest fyrir barðinu á umhverfinu. Sólin er okkur lífsnauðsynleg og þegar hún lætur sjá sig lifnar allt við - líka mannshjartað. En eins mikið og við dáum hana er ekkert sem hraðar jafn mikið öldrun húðarinnar og útfjólubláu geislar hennar. Sólin fer ekki í manngreiningarálit og einkennast sólarskemmdir m.a. af andlitslínum, háræðaslitum og litabreytingum, sem er hægt að meðhöndla með sérsniðinni húðmeðferð.
Karlmenn komast þó oftar upp með kæruleysi í húðumhirðu, en þeir eru með að jafnaði 25% þykkari húð en konur (vegna testósterónáhrifa). Húð þeirra hefur að meðaltali meira kollagen og elastín, sem gerir hana þéttari og stinnari. Hærra testósterón eykur einnig framleiðslu húðfeitis, en það tengist oft áberandi húðopum - stundum nefndar svitaholur sem er rangnefni, því húðfeiti og sviti hafa aðskilinn op í húðinni. Svitakirtlar eru reyndar einnig hlutfallslega fleiri hjá karlmönnum. Vegna fyrrgreindra sérstöðu húðar karlmanna eru þeir síður með viðkvæma húð en konur, auk þess sem öldrunaráhrif geta komið síðar fram.
Þrátt fyrir að vera aðeins á eftir okkur konunum í að dúlla við húðina, þá eru þeir farnir að láta sjá sig meira á stofunni. Algengustu húðmeðferðirnar sem þeir koma í flokkum við sem H-in fimm:
- Háreyðing með laser er ein vinsælasta meðferðin hjá herrum. Bak er vinsælasta svæðið en önnur svæði eru einnig tekin, t.d. andlit, kynfærasvæði o.fl. Flestir sjá mun eftir fyrsta skiptið en það tekur nokkur skipti að ná viðunandi árangri.
- Háræðaslit er hægt að fjarlægja með laser, en ekki er óalgengt að eldri herrar koma með rauð slit í kringum nef - stundum eftir að einhver hefur bent á að viðkomandi sé með eitthvað á nefinu. Oft dugar eitt skipti en stundum þarf að koma aftur.
- Húðslípun er klassísk meðferð hjá körlum því hún hreinsar vel húðina og frískar upp á útlitið með því að fjarlægja óhreinindi og dauðar húðfrumur yst í húðinni.
- Húðhreinsun er mildari meðferð en húðslípun og vinsæl meðal yngri herramanna, en þessi meðferð hentar vel fyrir einstaklinga frá 14 ára aldri. Í meðferðinni eru hreinsaðir fílapennslar, bólur og miliakorn í húð.
- Húðflúreyðing með laser er einnig vinsæl meðal karlmanna, en við bjóðum upp á staðdeyfingu fyrir meðferðina. Oft er verið að fjarlægja húðflúr sem menn fengu sér ungir að árum og vilja nú losna við. Svo er þessi meðferð einnig vinsæl sem fyrst skrefið í því að breyta um húðflúr.
Fleiri meðferðir eru einnig teknar af kalmönnum eins og öflugasta laserlyftingin og fylliefni sem draga úr skuggaspili í andlitinu. Þá er hægt að bóka tíma í ráðgjöf fyrir þá sem eru óvissir.
Vissulega er það undir hverjum og einum hvernig hann hlúir að sinni húð, en til að viðhalda heilbrigðri húð er skynsamlegt að gefa henni svolítinn gaum. Og skynsemi fer vonandi aldrei úr tísku.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning