Litlir lúmskir blettir

Bletturinn á vinstra læri dökknaði að því er virtist á einni nóttu. Uggur myndaðist innanbrjósts. Að vera af kvíðakyni sem gæti unnið heimsmeistaratitla væri keppt í áhyggjum var ekki að hjálpa mér. Um hugann flugu allar mögulegu verstu útkomurnar. Þangað til framheilinn á mér náði stjórn og sagði stelpunni að líklega yrði þetta allt í lagi. 

Síðustu ár hef ég lært að þegar kvíði bankar upp á hjá mér þá er oftar en ekki hægt að draga eitthvað upp úr fortíðinni sem sendir hann af stað eins og belju sem er hleypt út að vori. Í þessu tilfelli voru það stundirnar þegar ég vann á spítalanum sem læknir; á þessum tíma höfðum við enga lækningu gegn sortuæxli sem hafði dreift sér um líkamann. Allt of oft horfðum við á eftir ungum mæðrum sem greindust of seint með húðkrabbamein. Sorgartilfinningin kraumar enn innanbrjósts við tilhugsunina. Það sem eitt sinn var lítill blettur átti síðar eftir að ræna þær tilverunni. Margt hefur blessunarlega breyst og framfarir orðið í meðferð sortuæxla. 

Það er svo merkilegt með húðkrabbamein að þó svo að maður verði eldri og varkárari þá virðist meinið ekki kæra sig koll og leitar mann uppi, þó svo að maður hafi nú öll vopn á hendi: Hlífðarfatnað, sólhatt, sólgleraugu og sólarvörn. Öruggt skjól frá húðkrabbameinum er ekki til, sérstaklega ef maður hefur sótt í sólböð - hvað þá heldur að “fríska” sig í ljósabekkjum. Sólarvopnin gera sitt gagn en eru ekki 100% örugg. 

Það tók sinn tíma að komast að hjá húðlækni því flestir voru í sumarfríi. Bletturinn var fjarlægður og um leið og niðurstöður úr vefjagreiningu lágu fyrir var ég boðuð í stærri aðgerð því bletturinn reyndist vera sortuæxli á byrjunarstigi og skurðbrúnir ekki hreinar (sem þýðir að það gæti enn verið eitthvað eftir af krabbameininu í húðinni). Fimm sentimetra bútur var fjarlægður af lærinu og í staðinn fékk ég veglegt ör sem minnir mig svo lengi sem ég lifi á hve lánsöm ég var að taka eftir breytingunum svo snemma. Örið minnir mig einnig á að fara reglulega í blettaskoðun til húðlæknis. Það er líka huggun harmi gegn að manninum mínum finnst örið töff. 

Það getur bjargað lífi þínu að vera upplýstur og þekkja líkama þinn, því þú getur séð húðkrabbamein með eigin augum. Þú þekkir þína húð best en húðlæknirinn getur greint hvort blettir eru með útlit sem líkist húðkrabbameini. 

Þekkirðu einkenni sortuæxlis? 

Ef blettur hefur eitt eftirtalinna atriða þá getur það bent til sortuæxlis: 

  1. Ósamhverfur (ef þú skiptir blettinum í helminga þá er annar ekki spegilmynd hins)
  2. Óreglulegar brúnir (ekki sléttar og felldar brúnir)
  3. Fleiri en einn litur (t.d. eins og spælt egg)
  4. Hefur breyst yfir tíma (t.d. stækkað eða breytt um lit)
  5. Kláði eða sár (sérstaklega ef það er sár sem grær ekki eða kláði sem hverfur ekki)
  6. Þvermál er stærra en 6 mm

Þó sortuæxli fari ekki í manngreiningarálit þá eru nokkur atriði sem auka líkur á þeim: 

  1. Ef þú ert með ljósa húð sem brennur auðveldlega
  2. Ef þú hefur brunnið, sérstaklega fyrir 18 ára aldur
  3. Ef þú hefur farið í ljósabekk
  4. Ef þú ert með marga bletti
  5. Ef náinn ættingi þinn hefur greinst með sortuæxli

Umfram allt mundu að sortuæxli er venjulega auðvelt að lækna ef það greinist á byrjunarstigi en getur verið erfitt að eiga við nái það að dreifa sér. Ég þarf núna að mæta í blettaskoðun á hálfs árs fresti en húðlæknirinn þinn mun leiðbeina þér hve oft þú þarft að láta fylgjast með lúmskum blettum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband