Tíu leiðir til að halda húðinni heilbrigðri

Það er stundum svo kalt inni hjá mér að ég er ekki viss um að fingurnir á lyklaborðinu séu mínir því ég hef næstum enga tilfinningu í þeim. Og sem verra er, húðin á handarbökunum skreppur saman eins og þurrkuð sveskja - ef sveskja getur verið náhvít á litinn. Allt þetta er tilkomið vegna þess að æðakerfið ákvað að halda hita á "mikilvægari" líffærum. Hvenær ákvað skaparinn að það væri mikilvægara að halda hita á nýrunum en húðinni? Var þetta kannski stríðni sem gleymdist að leiðrétta? Kona hefur hendurnar fyrir framan augun liðlangan daginn - ekki nýrun!

Að öllu gamni slepptu fór ég að skoða fingravettlinga til að nota þegar ég vinn við tölvuna - innandyra í Kaliforníu! Því ekki þýðir að hamra hraðar eða fastar á lyklaborðið. Nýrun gefa sig ekki - hendurnar skulu ekki fá dropa af blóði og hita.

En kona er ekki þekkt fyrir að gefast auðveldlega upp svo hún tók saman nokkur atriði sem hún getur haft stjórn á til að láta húðinni sinni líða betur: 

  1. Verndaðu húðina fyrir kulda og sól. Ef þú stundar útivist verndar þú húðina gegn kulda með því að bera á hana feitt krem, t.d. frá Eucerin eða Vaselín. Ekki láta blekkjast af sólarleysi því UVA geislar lenda á húðinni allt árið um kring og geta endurvarpast í snjó og skýjum, sem gerir þá sterkari. UVA eru geislarnir sem fara djúpt niður í húðina og eru taldir valda mestu öldrunaráhrifunum. 
  2. Gefðu húðinni nægan raka með því að nota krem sem hentar þér. Ef þú ert með þurra húð gæti hjálpað að taka inn ómega-3 fitusýrur úr sjávarríkinu. Margir finna einnig meiri raka eftir að taka inn kollagen, t.d. unnið úr fiskroði. Beinasoð (t.d. úr afgangs kjúklingi) inniheldur þær aminósýrur sem kollagen eru gerð úr. Og mundu að drekka nóg vatn, sérstaklega ef þú drekkur kaffi eða áfengi sem eru vatnslosandi.
  3. Hugsaðu um að næra líkamann en ekki níðast á honum. Flest sem þú getur borðað beint úr lífríkinu er gott fyrir þig - og þú ert það sem þú borðar! Ef þú ert með bólguvandamál í húðinni eins og bólur eða exem þá getur hjálpað að halda sig við fæði sem inniheldur lágan sykurstuðul og stundum hjálpar að taka inn góða gerla þar sem þarmaflóran er nátengd ónæmiskerfinu sem aftur hefur áhrif á húðina. Ráðfærðu þig við lækni eða einhvern sem þekkir til. 
  4. Stilltu hringjara til að minna þig á háttatímann þannig að þú gleymir þér ekki og verður svefnvana enn aðra nóttina - ef svo er komið fyrir þér. Regla á svefni er lykilatriði. Manstu hvernig þér leið þegar þú leist í spegil eftir að hafa sofið bestu nótt lífs þíns? Til dæmis vitum við að djúpsvefninn er mikilvægur fyrir framleiðslu vaxtarhormóna sem hjálpar okkur að endurnýja m.a. húðina. Djúpsvefn minnkar með aldrinum svo nýttu hann meðan þú getur! 
  5. Hreyfðu þig meira en úr rúminu í bílinn og í skrifstofustólinn. Hreyfing örvar blóðflæði og súrefnisflutning til húðarinnar og myndar nýjar blóðæðar þannig að húðin fær meira súrefni og næringu. Undantekning er húðin á höndunum mínum!
  6. Ef streita bankar oft upp á þá er hugleiðsla öflugt tól til að róa hugann og þar með líkamann. Streita getur hraðað öldrun húðarinnar með því að fækka frumum sem framleiða kollagen. Það eru til góð snjallforrit eins og Calm eða Headspace og einnig er hægt að sækja ókeypis námskeið. 
  7. Haltu þig frá ljósabekkjum sem er það alversta fyrir húðina. Útfjólubláir geislar brjóta niður erfðaefni húðfruma og lætur húðina eldast hratt og örugglega. Mun hollara er að taka inn D-vítamín og fá sér í hádegisgöngutúr en að fara í ljós til að hressa upp á sig. 
  8. Segðu skilið við alla tóbaksnotkun. Öfugt við hreyfingu þá veldur nikótín því að æðarnar dragast saman og húðin fær minni næringu. Auk þess minnka efnin í sígarettum súrefnisflutning en súrefni er nauðsynlegt fyrir frumurnar okkar til að endurnýja sig. Húð þeirra sem reykir er þannig í nær samfelldum súrefnisskorti. 
  9. Ýmsar meðferðir geta snúið við öldrunareinkennum og aukið heilbrigði húðarinnar. Best er að panta tíma hjá fagmanni til að fá ráðleggingar um hvaða meðferð gæti hentað þér. Nú er hægt að meðhöndla mörg öldrunareinkenni með tiltölulega einföldum hætti.
  10. Fjárfestu í fingravettlingum, góðri húfu eða öðru sem heldur hita á húðinni. Húðin þarf flæði um æðarnar til að fá allt hráefnið (súrefni og næringarefni) til að endurnýja sig.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband