Það sem gerir þig að gulli
13.12.2019 | 05:06
Hefurðu leitt hugann að því að leið þín um lífið er einstök. Enginn annar fetar í nákvæmlega sömu fótspor og því getur enginn sett sig fullkomlega í þín spor. Við göngum stundum í gegnum svipaða lífsreynslu en hvernig við upplifum hana er háð erfðum og umhverfi, sem mótar hvert og eitt okkar. Því erum við misvel í stakk búin til að takast á við áföll og lífsins verkefni sem verða á vegi okkar. Auk þess bætist við að lifa á tímum þar sem fullkomnun er gjarnan gert hátt undir höfði og lítið svigrúm gefið fyrir mistök. Við erum fljót að fordæma - okkur sjálf og aðra. Varðhundar eru víða í viðbragðsstöðu eftir tækifærum til að hakka aðra í sig. Það þarf mismikið til að við brotnum niður.
Þegar líkami eða sál er í molum skiptir máli að koma brotunum saman.
Japanir eru með fallegt hugtak sem kallast kintsugi sem þýðir að bæta með gulli. Ef postulínsskál brotnar þá fleygja þeir henni ekki heldur gera við hana með lakki og gullpúðri. Umhyggjan og lagfæringin gerir hana fallegri og eftirsóknarverðari - enda er hún nú komin með sögu. Hún verður einstök.
Hægt er að heimfæra líf okkar á kintsugi, sem minnir okkur á að bjóða ófullkomnun velkomna. Það er í lagi að finna til og vera auðsæranlegur. Að syrgja og upplifa höfnun. Það er í lagi að mistakast, bera ör eða annað mark sem lífið hefur veitt okkur.
Svo má segja að lífsreynsla setji mark sitt á hörundið. Það gerir okkur samt ekki síðri - heldur einstök. Hvert mark er tákn í sögu þinni sem gerir þig að þeirri manneskju sem þú ert í dag. Sagan verður ekki tekin í burtu en við getum nýtt hana til að auðga líf okkar. Með hverri sögu og broti lærum við eitthvað nýtt sem við getum notað til að styrkja okkur.
Vefðu örmum utan um brot liðinna tíma - og sjáðu gildi þeirra. Hvað hafa þau kennt þér? Kintsugi minnir okkur á að með umhyggju er hægt að hlúa að okkar eigin brotum og fegra þau.
Og umfram allt, gakktu með þá visku að þín brot eru einstök, ólík öllum öðrum. Það eru bættu brotin sem gera þig að gulli!
Lára G. Sigurðardóttir
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.