Bólur byrja oft í meltingunni
1.10.2025 | 22:26
Ég breytti bara mataræðinu. Hætti að borða óhollan mat, t.d. snakk, djúpsteikt, nammi og svoleiðis sagði ungi maðurinn þegar ég spurði hvernig hann losnaði við bólurnar, en hann var mættur á stofuna til mín í ráðgjöf. Húð hans var flekklaus fyrir utan einstaka bóluör og litabreytingar sem hann langaði að láta laga.
Sjálf á ég unglinga sem sluppu ekki. Þeir fengu uppáskrifað allskonar lyfseðilsskyld krem, en bólurnar létu alltaf aftur á sér kræla. Svo kom kóvid. Þá gafst meira rými til að endurskoða mataræði heimilismanna þar sem skóli og vinna fluttist heim - það var ekki lengur hægt að laumast í skyndibita á skólatíma. Ávaxtaskál á morgnana og spínatsalat með kjúklingi í hádeginu var allt sem þurfti - ásamt venjulegum heimilismat á kvöldin. Enginn kvartaði, nema djúpsteiktu mozzarella-stangirnar í frystinum, sem upplifðu höfnun.
Húð drengjanna fékk aftur barnslegt yfirbragð. Mér varð hugsað til einblöðungsins á læknastofunni sem átti að fræða þá um bólur. Þar var tekið fram að mataræði hefði engin áhrif á bólur. Einmitt!
Þegar matur veldur bólum
En hvernig hefur mataræði áhrif á húðina? Hvernig getur fæði sem ferðast dýpst í líkamanum haft áhrif á húðina sem er yst?
Nokkrir þættir koma við sögu.
Kolvetnaríkt fæði hefur þrennskonar áhrif á húðina. Í fyrsta lagi hækkar blóðsykur gjarnan hratt eftir að einföld kolvetni eru innbyrt, t.d. sykur, hvítt brauð, gosdrykkir, hrísgrjón, pasta, pizza. Það kveikir á insúlínframleiðslu í brisinu sem segir lifrinni að losa insúlínlíkan vaxtarþátt IGF-1 í blóði - sem eykur andrógen-áhrif í líkamanum. Hormónabreytingar þessar stækka fitukirtlar sem framleiða meiri húðfeiti. Meiri húðfeiti eykur líkur á bólum, sérstaklega í andliti og efri hluta líkama þar sem hlutfallslega er mikið af fitukirtlum.
Í öðru lagi breytast kolvetni í fitu. Ef við borðum kolvetnaríkt fæði nýtir líkaminn hluta til að framleiða orku og geymir svolítið sem birgðir. Öll umfram kolvetni breytir líkaminn í fituefnið þríglýseríð og fríar fitusýrur - sem húðfeiti samanstendur aðallega af.
Í þriðja lagi geta einföld kolvetni (t.d. sykur og hvítt hveiti) haft óbein áhrif á húðina með því að fjölga slæmum þarmabakteríum sem seyta fitufjölsykrum. Fitufjölsykrur þessar finna sér leið í blóðið og þaðan í húðina (og aðra vefi). Ónæmiskerfið þitt vill fyrir alla muni losna við þessar sykrur og sendir út her sinn, sem skilur þig eftir með bólgur í kroppnum og jafnvel bólur í húðinni.
Mjólkurvörur hafa reynst auka bólur hjá sumum, gegnum örvun á fitukirtlum. Talið er að virknin sé í gegnum insúlín og IGF-1, líkt og með kolvetnin. Mysuprótein eru oft nefnd til sögunnar, en einkennandi fyrir bólur af völdum þess er að þær svara oft ekki hefðbundinni bólumeðferð.
Fita er mikilvæg húðinni en það er ekki sama hvaðan hún kemur. Jurtaolíur (t.d. canola- og sólblómaolía) geta ýtt undir bólgu í líkamanum, en þær eru ríkar af ómega-6 olíu. Ómega-6 er nauðsynleg kroppnum en algengt er að fá of mikið af henni með daglegu fæði, sem getur ýtt undir bólur ef hlutfall ómega-3 er lágt.
Ómega-3 fitusýrur eru mikilvægar fyrir húðina og geta dregið úr bólum, sérstaklega hjá þeim sem eru með miklar bólur. Þær draga úr bólguþáttum í blóðinu, lækka IGF-1 og hafa andoxunaráhrif. Ómega-3 gerir einnig frumuhimnur sveigjanlegri og bætir þannig starfsemi húðfruma. Ómega-3 er því svolítið eins og yoga fyrir kroppinn - frumurnar verða mýkri og minna stressaðar.
Unnin matvæli (t.d. snakk, sælgæti, unnar kjötvörur, tilbúin máltíð) eru orkurík en næringarsnauð. Þau eru gjarnan rík af einföldum kolvetnum og ómega-6 olíum - sem stuðla að bólgum í líkamanum, eins og við höfum áður rætt. Þau skapa auk þess ójafnvægi í þarmaflórunni.
Örverur í þörmunum hafa einnig verið tengdar bólum. Skaðræðis bakteríur og sveppir geta náð sér á strik eftir sýklalyfjakúr eða ef þú býður þeim upp á trefjalaust kolvetnaríkt fæði, sykursukk og áfengi. Slæma flóran framleiða bólguvaldandi fitufjölsykrur, sem geta ýtt undir bólguvesen í húð, þar á meðal bólur.
Bólur sem nútímavandi
Bólur þekktust ekki meðal inúíta fyrir 1950 þegar þeir lifðu á fæði úr náttúrunni. Það breyttist þegar þeir byrjuðu að borða vestrænt fæði og urðu bólur þá fyrst algengar meðal táninga, enda eru bólur algengari á Vesturlöndum en víða annars staðar.
Undantekningar finnast og sumir gera allt rétt en fá samt bólur. Þá þarf líka að huga að svefni, slökun, óhentugum húðvörum og fleiru sem ýtt geta undir bólur. Sem dæmi eru viðtakar fyrir streituhormónum í flestum húðfrumum bæði í yfirhúð og leðurhúð, en streituhormón auka framleiðslu á húðfeiti og ræsa ónæmiskerfið.
Þótt bólur séu sjaldnast lífshættulegar sýna rannsóknir að margir þjást andlega vegna þeirra. Þær geta dregið úr lífsgæðum, minnkað sjálfstraust og ýtt undir vanlíðan. Að breyta mataræði getur verið þrautarganga í upphafi en tilhugsunin um betri líðan gefur kraft til að velja fæði sem fer vel í kroppinn.
Náttúrulegar leiðir til að draga úr bólum
- Lágkolvetnamataræði: Sýnt hefur verið að tíu vikna kúr á slíku mataræði getur gert gæfumun. Húðsýni frá þátttakendum á lágkolvetnafæðinu reyndust hafa minni fitukirtla og bólgu, ásamt því að andrógen mældist lægra og insúlín-næmi jókst, sem dregur úr bólgu og m.a. líkum á sykursýki.
- Ómega-3 fitusýrur finnast t.d. í laxi, sardínum, síld, hörfræjum og valhnetum, en algengt er að fólk skorti þær nema þau sem hafa oft fisk á disk. Sýnt hefur verið að 1-3 g af ómega-3 olíu úr sjávarríkinu með hátt EPA/DHA hlutfall geti dregið úr bólum.
- Góða þarmaflóran sér þér fyrir ýmsum vítamínum og bólguhemjandi efnum fyrir húðin, m.a. bakteríuhemjandi prótein. Til að gera góðu örverurnar þínar hamingjusamar þarftu að gefa þeim nóg af trefjum og grænmeti. Eins er hægt að taka góðgerla tímabundið. Jörth er dæmi um íslenska framleiðslu sem hefur reynst mörgum vel.
- Auk ofangreinds eru A- og D-vítamín (t.d. lýsi og lifur) og sink (t.d. rautt kjöt, kjúklingur, skelfiskur og baunir) mikilvæg til koma í veg fyrir bólur, en þessi efni taka þátt í að stýra frumuskiptingu og endurnýjun húðar. Við viljum að dauðar húðfrumur losni auðveldlega af húðinni og stífli ekki fitukirtla - sem annars getur valdið bólum. Bólguhamlandi og bakteríudrepandi áhrif á bólubakteríuna eru einnig góð forvörn.
Það er augljóst að húðin elskar gott fæði. Gefðu henni grænmeti, prótein og ómega-3 og hún þakkar þér með ljóma. Prófaðu í tvo mánuði. Versta sem gerist? Þú nærir líkamann en losnar ekki við allar bólur. Besta sem gerist? Húðin segir Takk! og bólurnar hverfa. Tveir mánuðir með næringarríku fæði geta skilað meiri árangri en aragrúi krema.
Heimildir
https://pmc.ncbi.nlm.nih.gov/articles/PMC8971946/
https://pmc.ncbi.nlm.nih.gov/articles/PMC6115795/
https://www.clinicalnutritionjournal.com/article/S0261-5614(18)30166-3/fulltext
https://jamanetwork.com/journals/jamadermatology/fullarticle/2767075
https://www.mdpi.com/2072-6643/16/10/1476
https://pmc.ncbi.nlm.nih.gov/articles/PMC3543297
https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/jocd.16434
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/32463305/
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)